Kona sem ákærð er fyrir að sjá um bókanir fyrir vændishring í Bandaríkjunum hefur játað að hafa komið viðskiptavinum í samband við vændiskonur og peningaþvætti. Einn viðskiptavina konunnar, Temeka Rachelle Lewis, var fyrrum ríkisstjóri New York, Eliot Spitzer. Eftir að málið komst upp sagði Spitzer af sér.
Temeka Rachelle Lewis, 32 ára, kom fyrir dóm í New York í dag. Er hún ein fjögurra sem eru ákærð fyrir aðild að vændishringnum, Emperor's Club.
Í dómsskjölum kemur fram að bandaríska alríkislögreglan, FBI, hafi með leynd tekið upp samtöl þeirra Lewis og Spitzer um leynilegan ástarfund Spitzer með vændiskonu þann 13. febrúar sl. í Washington. Í dómsskjölunum er ríkisstjórinn fyrrverandi tilgreindur sem viðskiptavinur númer 9.
Spitzer greiddi 22 ára vændiskonu, Ashley Alexandra Dupré 4.300 dali fyrir eina nótt á hóteli í Washington.