Vaxandi hörmungar í Kína

Meira en 26.000 manns liggja grafnir undir húsarústum í Sichuan héraði í Kína, að sögn yfirvalda.  Björgunarsveitir segja að heilu þorpin nærri upptökum skjálftans hafi þurrkast út, og er talið að tala látinna eigi eftir að hækka gríðarlega.  Staðfest hefur verið að 15.000 manns hafa látið lífið, eftir jarðskjálftann sem reið yfir Kína á mánudaginn og mældist 7,8 á Richter. 

Flugvélar og þyrlur létu hjálpargögn falla niður til nauðstaddra á svæði sem erfitt er að komast að, í Mianyang, Mianzhu og Pengzhou og 100 hermenn voru sendir í fallhlífum inn á einangruð svæði.  Stjórnvöld í Kína hafa sent 50.000 hermenn til þess að vinna að björgunaraðgerðum um allt héraðið.

Erlendar fréttastofur sögðu í dag frá sprungum í stíflu fyrir ofan borgina Dujiangyan, og í fyrstu var talið að hætta stafaði af stíflunni.  Samkvæmt upplýsingum AFP fréttstofunnar neituðu opinberir embættismenn því í ríkisfjölmiðlum í dag að hætta stafaði af stíflunni og sögðu að rannsókn hafi leitt í ljós að mannvirkið væri stöðugt og öruggt.    

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert