Yfirvöld í Kína greindu frá því í morgun að líklegt sé að rúmlega 50.000 manns hafi látið lífið í jarðskjálftanum í suðvesturhluta landsins. „Talið er að rúmlega fimmtíu þúsund manns hafi látið lífið en staðfest tala látinna er 19.509,” segir talsmaður stjórnar samræmingarmiðstöðvar björgunaraðgerða.
Gao Qiang, aðstoðarheilbrigðisráðherra Kína, segir þó að hingað til hafi ekki orðið vart við ummerki farsótta á hamfarasvæðinu.
Talið er að tugir þúsunda manna séu enn grafnir lifandi undir húsarústum í landinu en björgunarstarf gengur víða hægt, m.a. vegna hættu á frekara hruni bygginga. Þá dregur úr von um að fólk finnist á lífi eftir því sem lengra líður frá skjálftanum.
Því hafa yfirvöld í landinu hvatt almenning til að leggja sitt að mörkum við björgunarstarfið með því að leggja björgunarmönnum til hamra, skóflur og gúmmíbáta. Þá hafa byggingarverktakar verið hvattir til að leggja til stórvirkar vinnuvélar.
Síðast var greint frá því að 22 árakonu hefði verið bjargað úr húsarústum í Dujiangyan 72 klukkustundum eftir að hún króaðist þar inni.
Skjálftinn, sem mældist 7,9 á Richter og reið yfir Sichuan-hérað á mánudag, er mannskæðasti jarðskjálfti í Kína í þrjá áratugi og einn sá versti sem sögur fara af.