John McCain, forsetaefni bandarískra repúblíkana í forsetakosningunum í nóvember, segist sjá fyrir sér að draga muni úr ofbeldi í Afganistan og Írak á næstu fjórum árum verði hann forseti Bandaríkjanna. Þetta muni þó gerast í rykkjum. Þá segist hann sjá fyrir sér að Osama bin Laden verði handsamaður eða felldur og að mjög verði dregið úr ríkisútgjöldum í Bandaríkjunum.
McCain segist einnig vilja sjá fyrirsjáanlegri skattlagningu, aðstæður innflytjenda batna m.a. með útgáfu nýrra tímabundinna atvinnuleyfa, vikulega fundi forseta með blaðamönnum og fyrirspurnartíma á bandaríska þinginu.
Hann segist þó gerasér grein fyrir því að hann geti ekki komið slíkum breytingum í gegn einn síns liðs og því vilji hann bæta samskipti repúblíkana og demókrata. „Ég hef ekki áhuga á flokkadráttum sem hafa það eitt að markmiði að ná tímabundið völdum af andstæðingnum. Slíkum hugsunar- og tilgangslausum átökum verður að linna. Við tilheyrum ólíkum flokkum en ekki ólíkum ríkjum,” sagði hann.
„Kosningabaráttan á sinn tíma og valdatímabil á sinn tíma. Verði ég kjörinn forseti þá mun tíma stöðugrar kosningabaráttu ljúka og tímabil þar sem lausnar verður leitað á vandamálunum hefjast.