John McCain, væntanlegur forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, sagði að Barack Obama væri ábyrgðarlaus og dró hann stórlega í efa að Obama hefði nægilega mikla dómgreind og reynslu til að stýra Bandaríkjunum.
McCain hélt ræðu hjá Samtökum skotvopnaeigenda í Bandaríkjunum í dag og gagnrýndi harðlega þá stefnu hjá Obama, sem þykir líklegur til að hreppa tilnefningu Demókrataflokksins, að vilja ræða við leiðtoga Írans, Sýrlands, Norður-Kóreu og Kúbu. „Það er óábyrgt af honum að gefa til kynna að skilyrðislausar umræður muni þjóna okkar hagsmunum,“ sagði McCain.
McCain hlakkar til að fara í kappræður við Obama og tala um þjóðaröryggismál. Honum finnst Obama vera hugsjónarmaður sem gerir sér ekki grein fyrir raunverulegu ástandi heimsmála. „Það væri frábært ef við byggjum í heimi þar sem við ættum enga óvini. En það er ekki heimurinn sem við búum í og þangað til hann uppgötvar það á almenningur að draga stórlega í efa hvort hann búi yfir styrknum og hafi nógu mikla dómgreind til að gæta öryggis hans,“ sagði hann.