Vill ekki vera varaforseti

John Edwards.
John Edwards. Reuters.

John Edwards ætlar ekki að vera varaforsetaefni öldungadeildarþingmannsins Barack Obama fari svo að hann hljóti tilnefningu Demókrataflokksins í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Edwards útilokar þó ekki að taka einhvern þátt í ríkisstjórn Obama fari svo að hann vinni. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Edwards, sem var varaforsetaefni Demókrataflokksins árið 2004, lýsti formlega yfir stuðningi sínum við Obama sl. miðvikudag. „Það mun ekki gerast. Ég hef ekki áhuga á því,“ sagði Edwards í samtali við sjónvarpsstöðina NBC þegar hann var spurður að því hvort hann vildi bjóða sig fram með Obama.

Stuðningur Edwards kom einungis daginn eftir að Hillary Clinton, mótherji Obama, vann yfirburðasigur í Vestur Virginíu. Hann neitaði fyrir að tímasetningin hefði ráðið því hvenær hann lýsti yfir stuðningi sínum. „Þetta var bara rétti tíminn. Mér fannst almenningur eiga skilið að vita hver afstaða mín væri,“ sagði Edwards.

Edwards bauð sig fram sem forsetaefni Demókrataflokksins en hætti í janúarmánuði en honum tókst ekki að vinna neinar forkosningar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert