Ferðamanni bjargað úr rústum

Þýskum ferðamanni var í morgun bjargað úr húsarústum í þorpinu Taoguan á jarðskjálftasvæðinu í Kína en Taoguan er aðeins nokkra kílómetra frá upptökum jarðskjálftans sem reið yfir á mánudag. Hafði maðurinn þá verið í rústunum í 114 stundir.

Talið er að yfir 50 þúsund manns hafi látið lífið af völdum skjálftans, sem mældist 7,9 stig á Richter. Björgunarmenn grafa víða í rústir húsa en vonir um að fleiri finnist þar á lífi dvína ört.


Í gær var 32 bjargað úr húsarústum, þar á meðal að minnsta kosti einu barni úr rústum skólahúss. Kínversk stjórnvöld hyggjast hefja rannsókn á því hvers vegna mikill fjöldi skólabygginga hrundi til grunna í jarðskjálftanum í Sichuan-héraði á mánudaginn. Jafnframt hefur verið gefin út viðvörun um að þeim sem ábyrgð báru á óvönduðum vinnubrögðum við byggingu skólabygginganna verði refsað.

Áætlað er að um sjö þúsund skólar hafi eyðilagst í héraðinu í skjálftanum. Þúsundir barna grófust undir rústum skóla sinna, en þau voru ýmist í tíma eða sofandi í skólanum sínum er skjálftinn reið yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka