Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Edward Kennedy gengst nú undir rannsóknir á sjúkrahúsi í Boston eftir að hafa fengið flog á sveitasetri Kennedyfjölskyldunnar í Hyannis á Þorshöfða í morgun. Fyrst var óttast að Kennedy hefði fengið heilablóðfall en svo mun ekki vera, að sögn lækna.
Stephanie Cutter, talsmaður Kennedys, sagði að ólíklegt væri að meira yrði að frétta af líðan þingmannsins þar til á morgun. Kennedy gekkst nýlega undir aðgerð vegna stíflaðrar slagæðar í hálsi.
Kennedy er 76 ára og hefur setið í öldungadeild Bandaríkjaþings frá árinu 1962. Hann er eini eftirlifandi bróðir Johns F. Kennedys, Bandaríkjaforseta, sem var myrtur árið 1963.