Hellirigning hefur verið á jarðskjálftasvæðunum í Kína í dag og m.a. féll aurskriða á þorp. Engan sakaði en fjórir bílar eyðilögðust. Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja að útlit sé fyrir áframhaldandi úrkomu í nótt og á morgun sem gæti aukið enn á hörmungar á svæðinu.
Xinhua fréttastofan sagði, að óttast væri að hús, sem urðu fyrir skemmdum í jarðskjálftanum, kunni að hrynja af völdum úrkomunnar og hvassviðris. Einnig muni veðrið hamla björgunaraðgerðum.
Að minnsta kosti 150 eftirskjálftar hafa komið í kjölfar stóra skjálftans, sem varð á mánudag og mældist 7,9 stig á Richter. Í dag varð skjálfti sem mældist 5,7 stig á Richter.