Bush hvetur til aðgerða gegn Hamas

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra og Stephen …
George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, Condoleezza Rice, utanríkisráðherra og Stephen Hadley, þjóðaröryggisráðgjafi, áttu fund með Salam Fayad, forsætisráðherra Palestínumanna í Egyptalandi í morgun. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hvatti í dag allar þjóðir í Miðausturlöndum til að beita sér gegn Hamassamtökunum og koma í veg fyrir stuðning Írana og Sýrlendinga við hryðjuverkastarfsemi.

„Við verðum að standa með góðu og heiðarlegu fólki í Íran og Sýrlandi, sem eiga mun betra skilið en það líf sem það lifir nú. Allar friðelskandi þjóðir á svæðinu hafa hagsmuna að gæta við að koma í veg fyrir að þessi lönd styðji hryðjuverk," sagði Bush í ræðu í Egyptalandi í morgun.

„Og það er í þágu hagsmuna allra friðelskanda þjóða á svæðinu, að hindra kjarnorkuvopnaáform Írans. Ef helsta stuðningsríki heims við hryðjuverkastarfsemi yrði leyft að komast yfir banvænasta vopn í heimi væri verið að svíkja komandi kynslóðir. Við getum ekki leyft Írönum og eiga kjarnavopn," sagði Bush.

Þá sagði hann að Hamassamtökin væru að reyna að grafa undan friðartilraunum með hryðju- og ofbeldisverkum en Hamas ræður Gasasvæðinu.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði á ríkisstjórnarfundi í dag, að þess væri ekki langt að bíða að Ísraelsstjórn tæki ákvörðun um hvernig brugðist verði við ástandinu á Gasa og stöðugum eldflaugaskotum Palestínumanna þaðan á Ísrael.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert