Hörð átök í Jóhannesborg

Eigandi veitingastaðar í Diepsloot eftir að staðurinn var rændur.
Eigandi veitingastaðar í Diepsloot eftir að staðurinn var rændur. Reuters.

Fimm manns hafa látist í árásum gegn innflytjendum í Jóhannesborg í Suður Afríku. Yfir 50 manns hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir skotárásum eða hnífstungum.  

Átökin blossuðu upp fyrir viku síðan í Alexandra bæjarumdæminu. Innflytjendur frá Simbabwe, Mósambík og Malaví hafa þar verið hundeltir af íbúum Jóhannesborgar, sem hafa það yfirlýsta markmið að hrekja alla innflytjendur burt. Hefur fólkið flúið til lögregluumdæma í leit að vernd og til nágrannabæjarins Diepsloot. Þar hafa innflytjendur þó einnig orðið fyrir árásum og voru kofar brenndir og verslanir rændar.   

Nelson Mandela, fuyrrum forseti landsins, hefur biðlað til þjóðarinnar að stuðla ekki að slíkum klofningi. Allt frá lokum aðskilnaðarstefnunnar hafa milljónir Afríkubúa sótt til Suður Afríku í leit að vinnu og skjóli. Með tímanum hafa þeir hins vegar orðið blórabögglar allra þeirra félagslegu vandamála sem hrjá landið. Mikið atvinnuleysi er í landinu, húsnæðisskortur er mikill og umfang glæpastarfseminnar er gríðarleg, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert