Fimm manns hafa látist í árásum gegn innflytjendum í Jóhannesborg í Suður Afríku. Yfir 50 manns hafa verið fluttir á sjúkrahús eftir að hafa orðið fyrir skotárásum eða hnífstungum.
Átökin blossuðu upp fyrir viku síðan í Alexandra bæjarumdæminu. Innflytjendur frá Simbabwe, Mósambík og Malaví hafa þar verið hundeltir af íbúum Jóhannesborgar, sem hafa það yfirlýsta markmið að hrekja alla innflytjendur burt. Hefur fólkið flúið til lögregluumdæma í leit að vernd og til nágrannabæjarins Diepsloot. Þar hafa innflytjendur þó einnig orðið fyrir árásum og voru kofar brenndir og verslanir rændar.