John Holmes, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna er nú á leið til Búrma þar sem hann mun freista þess að telja yfirvöld á að heimila erlendum hjálparstarfsmönnum að koma til landsins til að taka þátt í neyðaraðstoð vegna hamfaranna þar fyrir tveimur vikum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Holmes mun m.a. freista þess að koma bréfi frá Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, til Than Shwe, leiðtoga herforingjastjórnarinnar í landinu, en Shwe hefur neitað að ræða við Banfrá því fellibylurinn Nargis gekk yfir landið með skelfilegum afleiðingum 2. maí. Yfirvöld í Búrma segja nú að 78.000 hafi látið lífið í hamförunum og að 56.000 manns sé enn saknað. Þau segjast hins vegar fullfær um að sinna neyðaraðstoð í landinu fái þau bara birgðir erlendis frá og hafa að mestu hafnað beiðnum hjálparsamtaka um að senda hjálparstarfsmenn til landsins.
Þó hefur 50 indverskum læknum og hjúkrunarfólki nú verið veitt heimild til að koma til landsins. Bandarískum og frönskum skipum sem bíða með birgðir úti fyrir strönd landsins hefur þó enn ekki verið veitt heimild til að leggjast þar að bryggju. Yfirvöld í Búrma lýstu því yfir fyrir helgi að neyðaraðstoðartímabilinu væri lokið og uppbyggingartímabil hafið.
Bresku hjálparsamtökin Save the Children hafa hins vegar varað við því að hætta sé á að þúsundir barna á hamfarasvæðinu svelti í hel enda hafi 30,000 börn undir fim ára aldri verið vannærð á svæðinu fyrir hamfarirnar.