Maður í Bretlandi hefur sakað lögreglumenn sem gæta Harry prins um að hafa stefnt sér og fjölskyldunni sinni í hættu þegar hópurinnkeyrði á ofsahraða á hraðbraut. Þetta kemur fram á fréttavef Sky News.
Tim Williams var að keyra til Lundúna á hraðbrautinni M4 í síðustu viku ásamt eiginkonu sinni, mágkonuog átta mánaða gömlu barni. Hann var í þann mund að yfirgefa hraðbrautina þegar Audi bifreið sem ók á ofsahraða nálgaðist bílinn. Hann fór þá yfir á næstu akrein til að hleypa bifreiðinni fram úr en sá þá Range Rover bifreið beint fyrir aftan sig nálgast á ógnarhraða. „Þetta var skelfilegt. Í fyrstu hélt ég að bílarnir væru í einhvers konar kappakstri. Við urðum öll logandi hrædd,” sagði Williams.
Williams áttaði sig á því að einn bílanna var lögreglubifreið þegar hann sá blá ljós á henni. Hann sá ekki aðra undankomuleið en að gefa í á hraðbrautinni og keyra á allt að 160 kílómetra hraða til að forðast árekstur við bifreiðarnar.
20 mínútum seinna sá Williams sömu bílana er hann sat á rauðu ljósi í Lundúnaborg og brá heldur betur í brún þegar hann sá að þar sat Harry prins í aftursæti annarrar bifreiðarinnar.