Stjórnvöld í Búrma hafa samþykkt að heimila nágrannalöndum í Suðaustur-Asíu að skipuleggja erlenda hjálparaðstoð fyrir fórnarlömb fellibyljarins Nargis.
Frá þessu greindi George Yeo, utanríkisráðherra Singapore á blaðamannafundi eftir fund þjóða í Sambandi Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN). Yeo greindi einnig frá því að stjórnvöld í Búrma áætli að fjárhagslegt tjón vegna hamfaranna sé meira en 10 milljarðar Bandaríkjadala.
Yfirvöld segja að 78.000 manns hafa látið lífið eftir fellibylinn sem reið yfir landið 2. maí. Á fréttavef BBC kemur fram að læknateymum verði hleypt inn í landið þegar í stað.