Dönsk stjórnmál á suðupunkti

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Mikil spenna ríkir nú í dönskum stjórnmálum vegna umræðu um það hvar beri að heimila höfuðslæður múslímakvenna og hvar ekki. Birthe Rønn Hornbech, ráðherra innflytjenda og aðlögunarmála, sætir harðri gagnrýni en hún þykir hafa hafa ýtt mjög undir spennu og klofning innan stjórnarinnar með framkomu sinni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten. 

„Við höfum sigrað þrennar kosningar með því að standa fast á afstöðu okkar í menningarbaráttunni og nú er því öllu stefnt í hættu, segir stjórnarþingmaðurinn Søren Pind.

„Ráðherra innflytjendamála hefur stuðlað að óeiningu innan stjórnarinnar og í þingflokknum. Óeiningin skapar hættu á því að við missum forystu okkar í menningarbaráttunni sem er grundvallaratriði í þessu stjórnarsamstarfi. Við sigruðum þessa baráttu í kosningum á árunum 2001, 2005 og 2007, og því er mjög ergilegt að sjá allan þennan losaragang nú. Og þetta heldur bara áfram. Birthe Rønn  stendur fast á því að hún muni berjast gegn slæðubanni, nú bara innan flokksins. Hvað á fólk eiginlega að halda? Þessar yfirlýsingar koma of seint, þær koma eftir röngum leiðum og þær stuðla að klofningi innan þingflokksins. Þetta er allt mjög óheppilegt.”

Hornbeck lýsti sig nýlega andvíga stefnu stjórnarinnar í blaðagrein og neitaði síðan dögum saman að tjá sig frekar um málið. Hún greindi síðan frá því í gær að hún myndi styðja stefnu stjórnarinnar þótt hún væri henni ekki sammála. 

„Forsætisráðherrann hefur tekið af allan vafa um málið. Taki maður þátt í stjórnarsamstarfi þar sem teknar eru ákvarðanir þá stendur maður við þær. Þetta er eins og í hjónabandi. Það er sama hvað manni finnst um ákvarðanirnar, maður getur ekki gengið um og sagt að maður muni greiða atkvæði á móti þeim,” sagði hún.

Hún sagðist þó áfram ætla að berjast fyrir sjónarmiðum sínum innan stjórnarinnar. „Ég vil að rökræður fari fram. Það er þess vegna sem ég skrifaði. Niðurstaðan er hins vegar önnur en ég óskaði eftir en það þýðir ekki að fást um það. Sem þingmaður þarf maður bara að standa fyrir sínu gagnvart kjósendum en sem ráðherra hefur maður yfirmann sem er forsætisráðherrann,” sagi hún. 

Þá segir hún að það fjaðrafok sem grein hennar hafi valdið sýni að Danir þori ekki að taka átt í rökræðum. „Það lítur út fyrir að við í Danmörku þolum ekki lengur að fólk hafi mismunandi skoðanir. Okkur er ekki leyft að viðra mismunandi skoðanir innan flokkanna á Christiansborg. Heldur fólk virkilega að við getum tekið skynsamlegar ákvarðanir fáum bið ekki leyfi til að ræða málin fyrst?”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert