Kona lést á Nýja-Sjálandi í fyrra eftir að orkufyrirtæki skrúfaði fyrir rafmagn á heimili hennar. Konan, sem þurfti á aðstoð súrefniskúts að halda, lést tveimur tímum eftir að orkufyrirtækið skrúfaði fyrir rafmagnið vegna skuldar upp á rúmlega 30 nýsjálenska dali, um 1.500 krónur íslenskar. Þetta kom fram við málflutning hjá dánardómsstjóra í dag.
Folole Muliaga, 44 ára, leikskólakennari, lést þann 29. maí í fyrra er Mercury Energy skrúfaði fyrir rafmagnið. Vakti dauði hennar mikla reiði meðal íbúa á Nýja-Sjálandi og sagði forsætisráðherra landsins, Helen Clark, á þeim tíma að aðgerðir orkufyrirtækisins væru ómannúðlegar og ólíðandi.
Eiginmaður Muliaga, Lopaavea, sagði í réttinum í morgun að hann hefði haft samband við Mercury Energy í byrjun maí í fyrra til þess að reyna að semja um greiðslu reikningsins með afborgunum án árangurs. Hann greiddi reikninginn í maí en þrátt fyrir það skrúfaði fyrirtækið fyrir rafmagnið á heimili þeirra átta dögum síðar með fyrrgreindum afleiðingum. „Á þeim tíma held ég að aleiga okkar hafi verið 34,44 dalir, (tæpar tvö þúsund krónur)" sagði hann.
Lopaavea Muliaga sagði í morgun að hann hafi verið í vinnunni þegar slökkt var á rafmagninu. Þegar hann kom heim var kona hans látin og tveir sjúkraflutningamenn í húsinu. Eiginkona hans, sem var langt yfir kjörþyngd, þurfti á súrefni að halda 16 tíma á sólarhring með aðstoð súrefniskúts.
„Eftir að rafmagnið var tekið af sat ég í myrkrinu ásamt börnum mínum þar sem Mercury Energy neitaði að tengja rafmagnið á ný fyrr en klukkan átta morguninn eftir," sagði hann við réttarhöldin í morgun.
Í kjölfar andláts Folole Muliaga tilkynnti orkufyrirtækið að það myndi endurskoða samninga við viðskiptavini sem ættu við heilsufarsvandamál að stríða og þá sem ættu í fjárhagserfiðleikum.