Fox sjónvarpsstöðin spáði því að Hillary Clinton hafði sigrað Barack Obama með yfirburðum í forsetakosningum Demókrataflokksins í Kentucky í Bandaríkjunum en kjörstöðum var lokað klukkan 23 að íslenskum tíma. Þegar búið var að telja 29% atkvæða hafði Clinton fengið 57% atkvæða en Obama 40%.
Einnig var kosið í Oregon í dag en úrslit munu væntanlega ekki liggja fyrir þar fyrr en í nótt. Skoðanakannanir bentu til þess að Obama myndi fara þar með sigur af hólmi með talsverðum mun.
Alls var kosið um 103 kjörmenn í forkosningunum í ríkjunum tveimur í dag. Obama vonast til, að í kosningunum í dag tryggi hann sér sér samtals meira en helming þeirra kjörnu fulltrúa, sem munu sitja flokksþing demókrata í ágúst. Alls eru 3253 fulltrúar kjörnir á flokksþingið í forkosningum. Búið er að kjósa 3053 og þar af eru stuðningsmenn Obamas 1610 en 1443 munu styðja Clinton.
Að auki eiga 797 forustumenn flokksfélaga í ríkjum demókrata seturétt á flokksþinginu og þeir hafa frjálsar hendur um hvaða frambjóðanda þeir styða. 305 hafa lýst yfir stuðningi við Obama en 278 hafa lýst stuðningi við Clinton. Samtals þarf stuðning 2026 þingfulltrúa til að hljóta útnefningu á flokksþinginu.