Kennedy með heilaæxli

Edward Kennedy, öldungadeildarþingmaður, hefur greinst með illkynja heilaæxli. Kennedy var fluttur á sjúkrahús í Boston um helgina eftir að hann fékk flog í sveitasetri sínu í Hyanis á Þorskhöfða. Fyrst var talið að hann hefði fengið heilablóðfall en svo reyndist ekki vera.

Læknar Kennedys segja, að rannsóknir hafi leitt í ljós að Kennedy sé með illkynja æxli í vinstra heilahveli. Tekin verður ákvörðun um meðferð eftir frekari rannsóknir en æxli af þessu tagi eru oftast meðhöndluð með geislameðferð og lyfjum.

Læknarnir segja í yfirlýsingu, að Kennedy hafi ekki fengið flog eftir að hann var fluttur á sjúkrahúsið. Hann hvílist og sé vel á sig kominn andlega.

Kennedy er 76 ára og hefur setið í bandarísku öldungadeildinni frá árinu 1962. Hann er eini eftirlifandi bróðir Johns F. Kennedys, Bandaríkjaforseta, sem var myrtur árið 1963. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert