Helsti leiðtogi ETA, samtaka aðskilnaðarsinnaðra Baska, var handtekinn í kvöld í Bordeaux í Frakklandi í sameiginlegri aðgerð franskrar og spænskrar lögreglu. Þrír nánir samverkamenn mannsins voru einnig handteknir í aðgerðunum.
Leiðtoginn heitir Javier Lopez Peña, öðru nafni Thierry.
ETA hefur barist fyrir sjálfstæðu ríki Baska í fjóra áratugi. Talið er að samtökin beri ábyrgð á dauða yfir 820 manna á þessu tímabili. Síðast stóð ETA fyrir sprengjuárás í úthverfi Bilbao í gær. Engan sakaði en bygging siglingaklúbbs skemmdist.