Obama segir sigur í nánd

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Barack Obama sagði í nótt að hann væri um það bil að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins eftir forkosningar í tveimur ríkjum í gær. Hillary Clinton segist þó ætla að berjast áfram fyrir tilnefningunni en hún vann stórsigur í Kentucky í gær.

Clinton fékk 65% atkvæða í forkosningunum í Kentucky í gær en Obama 30%. Úrslit liggja ekki enn fyrir í kosningum í Oregon en þegar búið var að telja um 30% atkvæða hafði Obama fengið 60% og Clinton 40%. Af 103 kjörmönnum, sem kosið var um í ríkjunum fékk Clinton að minnsta kosti 37 og Obama 23. Þar með hefur Obama tryggt sér meirihluta kjörinna fulltrúa á flokksþingi demókrata í sumar og alls 1940 fulltrúa af 2026, sem þarf til að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni flokksins.  Clinton hefur tryggt sér 1759 samkvæmt útreikningum AP fréttastofunnar. 

Obama ávarpaði stuðningsmenn sína í Iowa í nótt og sagði þá að útnefning sín sem forsetaefni demókrata væri innan seilingar. Obama hefur þegar snúið sér að kosningabaráttunni við  John McCain, sem væntanlega verður forsetaefni Repúblikanaflokksins.

„Við eigum enn nokkuð verk óunnið í þeim ríkjum þar sem eftir á að kjósa og þar munum við berjast um hvern kjörmann," sagði Obama í tölvupósti til stuðningsmanna. Þá bar hann lof á Clinton en gagnrýndi McCain fyrir að reka kosningabaráttu fyrir þrýstihópa. 

Clinton ávarpaði stuðningsmenn í Louisville í Kentucky í nótt og sagðist staðráðin í að berjast fyrir því að hvert atkvæði yrði greitt. Hún talaði einnig á jákvæðum nótum um Obama: „Þótt við höldum áfram að berjast um þessa útnefningu deilum við sömu markmiðunum þegar að því kemur að sameinast innan flokks okkar um að kjósa forseta úr röðum demókrata í haust," sagði hún.

Clinton getur ekki gert sér vonir um að vinna upp það forskot, sem Obama hefur í kjörmannafjölda en hún vonast til að fá fleiri atkvæði en hann í forkosningunum í heild. Þá eru Flórída og Michigan meðtalin en þessi ríki fá enga kjörmenn á flokksþing demókrata vegna deilna við flokkinn um tímasetningar forkosninga.

Forkosningar verða haldnar í Puerto Rico 1. júní og síðustu forkosningarnar verða síðan í Suður-Dakóta og Montana 3. júní.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert