Tveir menn unnu skemmdir á fornleifum í Stonehenge á Englandi með skrúfjárni og hömrum í síðustu viku. Er þetta í fyrsta skipti í áratugi sem mannvirkin verða fyrir barðinu á skemmdarvörgum.
Ekki er vitað hvað mönnunum gekk til en jafnvel er talið að þeir hafi viljað verða sér úti um minjagripi frá staðnum. Var steinflís á stærð við mynt fjarlægð úr einum steininum og djúp rispa rist í annan. Mennirnir komust undan á flótta er þeir urðu varir við öryggisverði sem nálguðust þá.
Í Stonehenge, eru leifar af hringbyggingu úr 70 risastórum steinum en talið er að flestir steinarnir hafi staðið þar í allt að 5.000 ár. Um 40% steinanna eru enn á sínum stað og koma 850.000 ferðamenn þangað árlega til að skoða fornleifarnar.