Hillary Clinton vísaði m.a. til þess að Robert Kennedy var myrtur árið 1968 meðan á kosningabaráttu fyrir tilnefningu sem forsetaefni demókrata stóð, þegar hún var spurð hvers vegna hún heldur áfram sinni kosningabaráttu, sem virðist töpuð.
„Eiginmaður minn tryggði sér ekki útnefninguna árið 1992 fyrr en hann vann forkosningarnar í Kalíforníu í júní. Við munum öll þegar Bobby Kennedy var myrtur í júní í Kalíforníu. Ég skil ekki þessar spurningar, sagði hún á kosningafundi í Sioux Falls í Suður-Dakóta.
Talsmaður framboðs Baracks Obama sagði, að ummæli Clinton um morðið á Kennedy hefðu verið óviðeigandi og óheppileg. En talsmaður Clinton sagði, að hún hefði aðeins vísað til eiginmanns síns og Kennedys sem sögulegra staðreynda og þess að útnefningarferlið hefði áður dregist langt fram á sumar. Ekki væri hægt að lesa neitt annað út úr ummælunum.