Ísraelskir embættismenn segja að friðarviðræður Ísraela og Sýrlendinga gerbreyti stöðu Írana í heimshlutanum. Þá segja þeir þögn íranskra ráðamanna í kjölfar þess að ráðamenn í ríkjunum staðfestu að viðræður ættu sér stað á milli þeirra bendi til þess að Íranar séu í áfalli, vegna fréttanna. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, sagði Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, að Ísraear hafi ekki sett nein skilyrði fyrir viðræðunum en að báðir aðilar geri sér grein fyrir því hvað þeir þurfi að gera til að þær skili árangri.
„Ég sagði við þá, ef þið viljið ræða málin komið þið þá og ræðið málin. Sýrlendingar vita hvað við viljum og þeir vita hvað við viljum,” sagði hann. Þá sagði hann enga hættu á því að friðarviðræður við Sýrlendinga tefji friðarviðræður við Palestínumenn.
„Ísraelar ætla sér að taka þátt í tveimur friðarviðræðum á sama tíma án þess að aðrar viðræðurnar þvælist fyrir hinum.”