Barack Obama sagði í dag að ef hann verði kjörinn næsti forseti Bandaríkjanna þá muni hann taka upp viðræður við stjórnvöld á Kúbu. Þá gagnrýndi Obama forsetaframbjóðanda repúblikana, John McCain, fyrir að vilja að halda í ónýtar stefnur.
Obama, sem etur kappi við Hillary Clinton um forsetaútnefningu demókrata, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að segjast vilja ræða við leiðtoga þeirra ríkja sem eru óvinveitt Bandaríkjunum, t.d. Kúbu og Írans. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
McCain hefur gagnrýnt tillögur Obama. Hann segist ætla að viðhalda viðskiptabanni á Kúbu þar til kommúnistastjórnin þar í landi ákveður að sleppa pólitískum föngum, veiti íbúunum aukið frelsi og ákveður að halda kosningar sem alþjóðasamfélagið getur fylgst með.
Bæði Obama og McCain reyna nú að ná til íbúa Flórída sem eiga rætur sínar að rekja til Kúbu, en kjósendurnir hafa mikil ítök í ríkinu og er talið líklegt að það muni leika stórt hlutverk í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember.