Vopnahlésviðræður á milli Ísraela og herskárra samtaka Palestínumanna virðast vera að renna út í sandinn en sjálfsvístilræði var framið við landamærastöð Ísraela á landamærum Gasasvæðisins og Ísraels í gær. Þá kom til átaka við aðra landamærastöð er Palestínumenn efndu þar til mótmælaaðgerða. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.
Fram kemur á vefsíðu Hamas-samtakanna að vopnahlésviðræður séu við það að sigla í strand vegna tregðu Ísraela til að fallast á að öllum ferðatakmörkunum á Palestínumenn um landamæri Gasasvæðisins og Egyptaland verði aflétt.
Khalil al-Hayya, samningamaður Hamas-samtakanna, neitaði þó að staðfesta það í gær að upp úr viðræðunum hefði slitnað. Sagði hann samningamenn Palestínumanna bíða svara Ísraela.
„Við höfum heyrt viðbrögð Ísraela. Þau þarfnast nánari skýringa. Við höfum farið fram á svör við ákveðnum spurningum og væntum þess að fá svör við þeim innan nokkurra daga. Við vonumst eftir að þau verði jákvæð þannig að umsátrinu um þjóð okkar verði aflétt,” sagði hann.