Fullorðin hjón urðu fyrir sérlega grófri árás innbrotsþjófa á búgarði sínum suður af Álaborg á Jótlandi síðastliðna nótt. Tveir vopnaðir ræningjar réðust inn á þau þar sem þau lágu sofandi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.Skotvopni var m.a. beint að höfði mannsins og skotið út í loftið. Fólkinu tókst þó að verjast mönnunum, m.a. með piparúða og rafmagnsbyssu sem notuð er til að reka búfénað.
Samkvæmt upplýsingum lögreglu var maðurinn sofnaður er ræningjarnir brutust inn á heimilið. Eiginkona hans var hins vegar vakandi og fór hún á stjá þegar hún heyrði grunsamleg hljóð á neðri hæð hússins.
Þegar niður kom var henni strax hótað með byssu af grímuklæddum mönnum. Maður hennar vaknaði við hávaða er hún tókst á við ræningjana og segir lögregla fólkið hafa sýnt mikið hugrekki og hörku við að verja hvort annað og heimili sitt.