Þrír lögreglumenn og þrír mótmælendur slösuðust í átökum í Napólí á Ítalíu í nótt og í morgun þar sem fjöldi fólks kom saman til að mótmæla ástandinu í sorpmálum borgarinnar og áformum um opnun nýrra sorpshauga í Chiaiano þéttbyggðu hverfi í útjaðri borgarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Tveir lögreglumannanna slösuðust í morgun er þeir reyndu að fjarlægja strætisvagn sem lagt hafði verið þannig að hann lokaði aðgengi að haugunum. Haugarnir eru einir af tíu sorphaugum sem yfirvöld hafa veitt heimild fyrir í aðgerðum sem miða að því að leysa hinn gífurlega sorpvanda sem er í borginni.
Mörg þúsund tonn af rusli hafa legið á götum Napólí frá jólum þar sem ruslahaugar borgarinnar eru allir yfirfullir. Íbúar Chiaiano óttast hins vegar að nýting steinnámu sem ruslahauga muni hafa heilsuspillandi áhrif á umhverfið.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti fyrr í vikunni ströng viðurlög við því að brjóta gegn valdboði lögreglu í sorpmálinu. Sú ákvörðun hans að kalla út herinn hefur hins vegar mætt harðri gagnrýni forsvarsmanna hersins sem segja það ekki vera hlutverk hans að standa gegn óskum íbúa Napólíborgar.