Vill verðleggja náttúruna

Anders Fogh Rasmusssen, forsætisráðherra Danmerkur.
Anders Fogh Rasmusssen, forsætisráðherra Danmerkur. Reuters

Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur vill verðleggja náttúruna og rukka fyrir þau spjöll sem framkvæmdir valda á henni. Segir hann kostnað við vegalagningu og byggingu annarra samgöngumannvirkja fram til þessa hafa verið allt of lágan þar sem spjöll á náttúru hafi ekki verið metin til fjár. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

„Við verðum að fara að hugsa um annað en samninga og efnahagsleg verðmæti þegar ákvarðanir um stórar samgönguframkvæmdir eru teknar. Það er líka til nokkuð sem heitir náttúruauður. Hann hefur fram til þessa ekki verið verðlagður. Í framkvæmdum framtíðarinnar verðum við að taka tillit til þess við útreikninga okkar hvað hraðbrautir , járnbrautir og önnur samgöngumannvirki kosta umhverfið,” segir Fogh en til stendur að hefja vinnu við samningu nýrrar samgönguáætlunar fyrir Dani til næstu til tuttugu, þrjátíu ára í haust.

„Það mun að sjálfsögðu auka kostnað að reina náttúruverðmæti inn í dæmið þar sem við höfum hingað til búið við óraunverulega lágt verð,” segir hann.

Per Homann Jespersen, umferðasérfræðingur við háskólann í Hróarskeldu, RUC, segir að þessar breyttu áherslur forsætisráðherrans geti m.a. haft áhrif á áform um að leggja nýja hraðbraut eftir þveru Jótlandi, nýjan Ring 5-veg umhverfis Kaupmannahöfn.

Þá segir hann að ætli forsætisráðherrann að standa við stóru orðin hljóti það að þýða það að meiri áhersla verði lögð á járnbrautalagningu á kostnað hraðbrauta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert