Hillary Clinton sagði í dag að hún myndi ekki játa ósigur fyrir Barack Obama í forvali Demókrataflokksins í Bandaríkjunum þrátt fyrir sífellt háværari kröfur um að hún láti af baráttunni. Jimmy Carter, fyrrverandi forseti, hefur nú bæst í hóp þeirra demókrata sem hvetja hana til að hverfa frá.
Carter er einn þeirra 800 skipuðu kjörfundarfulltrúa sem kýs forsetaframbjóðanda flokksins. Slíkum fulltrúum er í sjálfsvald sett hvorn frambjóðandann þeir kjósa, og Carter sagðist í dag telja að þessir fulltrúar myndu ákveða sig í næsta mánuði, og þá væri kominn tími til að Clinton hætti baráttunni.
Hún sagðist sjálf vera fullviss um að hún ætti meiri möguleika en Obama í kosningum gegn John McCain, frambjóðanda Repúblíkanaflokksins.
Clinton hefur nú tryggt sér stuðning 1.780 fulltrúa á landsfundi Demókrataflokksins, en Obama 1.970, og vantar Obama lítið upp á til að hafa tryggt sér þá 2.026 sem þarf til sigurs.