Bæði Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands, og Vladímír Pútín, forsætisráðherra, hafa sent rússnesku poppstjörnunni Dima Bilan heillaóskir eftir að hann vann Eurovision söngvakeppnina í gær. „Þetta er ekki aðeins persónulegur sigur Dima Bilans heldur einnig enn einn sigur alls Rússlands," sagði Pútín.
Rússar urðu nýlega heimsmeistarar í íshokkí og rússneska knattspyrnuliðið Zenit frá St. Pétursborg varð Evrópubikarmeistari.
Medvedev hringdi í Bilan til að óska honum til hamingju og sagðist viss um að Eurovisionkeppnin í Rússlandi á næsta ári yrði afar vegleg.
Embættismenn í bænum Ust-Dzheguta við Kákasusfjöll sögðu í morgun að gata yrði nefnd eftir söngvaranum en hann er fæddur í bænum.