Þrír fjórtán ára gamlir drengir létust í gær af slysförum á norðurhluta Jótlands þegar gamall herjeppi, sem þeir óku, valt. Fjórði drengurinn slasaðist alvarlega en er þó ekki talinn í lífshættu.
Að sögn Jyllands-Posten er ekki vitað hvort drengirnir höfðu fengið leyfi til að aka bílnum, sem er svonefndur Unimog og er í eigu föður eins drengsins. Slysið varð nálægt sumarhúsahverfi við Mariagerfjörð, ekki langt frá Álaborg.
Byrjað var að óttast um drengina síðdegis í gær þegar þeir komu ekki heim úr ökuferðinni og nokkru síðar fannst bíllinn á hvolfi í skurði. Björgunarmenn voru í um 2 stundir að ná bílnum upp úr skurðinum.