Varað við banvænu ástarlyfi

Ástarlyfið í umbúðum undir heitinu Black Stone.
Ástarlyfið í umbúðum undir heitinu Black Stone. AP

Heilbrigðisyfirvöld í New York hafa varað borgarbúa við ólöglegu ástarlyfi sem gert er úr körtueitri eftir að það varð manni að bana, að því er virðist.

Samkvæmt sjúkraskýrslu sem heilbrigðisyfirvöldum barst á föstudag lést 35 ára karlmaður fyrr í mánuðinum eftir að hafa lagt sér lyfið til munns.

Lyfið er selt undir ýmsum heitum, þ.á m. Piedra, Love Stone, Jamaíkusteinn, Svartsteinn og Kínagrjót, í verslunum með kynlífsvarning. Lyfir er bannað samkvæmt bandaríska Matvæla- og lyfjaeftirlitinu.

Að sögn sérfræðinga inniheldur lyfið efni sem geta valdið hjartsláttartruflunum. Þótt hugmyndin sé að efnið sé borið á húð en ekki innbyrt segja yfirvöld að öll notkun þess geti verið hættuleg.

Sama efni varð fertugum manni að bana í Brooklyn 2002 og að minnsta kosti fjórum borgarbúum í byrjun tíunda áratugarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka