Yfirmaður hjá Kaupmannahafnarlögreglunni hefur verið handtekinn vegna gruns um að hann hafi ætlað að tæla stúlku undir lögaldri til kynmaka. Maðurinn taldi sig vera að ræða við 13 ára stúlku á netinu og í síma en í raun var „stúlkan" blaðamaður Ekstra Bladet.
Lögreglumaðurinn er 53 ára fjölskyldumaður. Að sögn Ekstra Bladet bað lögreglumaðurinn ítrekað stúlkuna um að hitta sig að og sagði að hún mætti ekki segja móður sinni frá því. Hann sagðist vilja faðma og kela við stúlkuna ef hún vildi.
Maðurinn og „stúlkan" urðu ásátt um að hittast á Norðurbrú 14. maí. Þar tóku hins vegar blaðamenn Ekstra Bladet á móti honum og lögreglumaðurinn flúði af hólmi án þess að útskýra gerðir sínar.
Lögreglan er nú að rannsaka mál mannsins og hvort hann hafi gerst sekur um refsivert athæfi. Hefur verið gerð húsleit heima hjá manninum og á skrifstofu hans. Lögreglumanninum hefur verið vikið frá störfum meðan á rannsókninni stendur.