Hundruð atvinnubílstjóra ætla að koma saman í Lundúnum í dag til þess að mótmæla háu eldsneytisverði. Bílstjórarnir koma alls staðar að og stefna að því að mynda bílalest inn í borgina. Förinni er heitið að Marble Arch í miðborg Lundúna og þaðan að Downing stræti 10, heimili Gordons Brown, forsætisráðherra.
Bílstjórarnir hvetja stjórnvöld til að veita atvinnubílstjórum stuðning vegna hækkunar á eldsneytisverði að undanförnu. Í dag kostar lítir af dísil olíu rúmlega 1,20 pund, 171,74 krónur. Segja bílstjórarnir að þúsundir starfa séu í hættu vegna aukins eldsneytiskostnaðar.
Eins mótmæla atvinnubílstjórar fyrirhuguðum umhverfisskatti á ákveðnar tegundir bifreiða.