Ekkert lát virðist vera á hnífstunguárásum í London þrátt fyrir áróðursherferð og háværar kröfur almennings um að borgarbúar hætti að ganga um vopnaðir hnífum. Fimm menn voru stungnir á Bird In Hand kránni in Bromley í suðurhluta borgarinnar í morgun og liggja tveir þeirra nú alvarlega slasaðir á sjúkrahúsi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
„Þetta er alvarlegt atvik. Fimmmenningarnir eru ekki táningar heldur fullorðnir menn en þetta ýtir undir þá vitundarvakningu sem nú er í gangi varðandi hnífstunguglæpi, sérstaklega í London,” segir Mark White, fréttaskýrandi Sky.
Átta menn á aldrinum 19 til 33 ára voru einnig handteknir í morgun vegna gruns um aðild að drápi, 31 árs gamals manns, í Bradford snemma í morgun. Annar maður slasaðist einnig í þeim átökum
Á laugardag var hinn átján ára Rob Knox, sem hafði nýlokið við að leika í nýjustu Harry Potter myndinni, stunginn til bana Sidcup í Kent og sama dag lét 41 árs gamall maður lífið og annar slasaðist er þeir urðu fyrir hnífstunguárás í Bristol.
Á sunnudag voru síðan þrír táningar stungnir, einn í nágrenni East Ham lestarstöðvarinnar og tveir í norðurhluta London.
Tveir þeirra liggja lífshættulega slasaðir á sjúkrahúsi.Sautján ára piltur var einnig skotinn til bana í Gilbeys Yard í Camden á laugardag og á föstudag var annar sautján ára piltur skotinn í magann í Archway í norðurhluta London