Nepal lýsti því formlega yfir í dag að þar hefði verið tekið upp lýðveldi eftir 240 ára konungdæmi. Sérstakt stjórnlagaþing í höfuðborginni Kathmandu lýsti því yfir í dag að konungbundin stjórn hefði verið aflögð og lýðveldi tekið upp.
Afnám konungdæmisins er afleiðing friðarsamkomulags, sem gert var við Maóista árið 2006 en þeir höfðu áratugum saman staðið fyrir blóðugri uppreisn í landinu. Í þingkosningum, sem fóru fram í apríl, fengu Maóistar flest atkvæði.