Var tæpa sex áratugi í stállunga

Dianne Odell ræðir við Geneva móður sína fyrir nokkrum árum.
Dianne Odell ræðir við Geneva móður sína fyrir nokkrum árum. AP

61 árs bandarísk kona, Dianne Odell, lést í vikunni eftir að hafa nánast alla  ævina legið í stállunga á heimili sínu í Memphis í Tennessee. Vegna rafmagnsbilunar af völdum óveðurs fór rafmagn af öndunarvélinni og neyðarrafall í húsi Odells fór ekki í gang af einhverjum ástæðum.

Odell fékk lömunarveiki þegar hún var þriggja ára gömul og eftir það gat hún ekki andað án aðstoðar. Hún var fljótlega sett í svonefnt stállunga, hólk sem umlykur líkamann og þrýstir lofti úr og í lungun. Hætt var að mestu að nota stállungu í lok sjötta áratugarins og minni og meðfærilegri öndunarvélar komu í staðinn. Mænuskaði gerði það hins vegar að verkum, að Odell gat ekki notað slíkar vélar.

Odell lá því á bakinu í stállunganu í nærri sex áratugi. Aðeins höfuð hennar stóð út úr vélinni og hún gat horft á gesti í spegli. Hún stýrði sjónvarpi og raddstýrðri tölvu með blásturspípu. Hjúkrunarfólk gat rennt Odell út úr lunganu en slík aðhlynning gat aðeins staðið yfir í stuttan tíma í senn.

Þrátt fyrir þetta útskrifaðist Odell úr menntaskóla, tók námskeið í háskóla og skrifaði barnabók um óskastjörnu. „Ég hef átt innihaldsríkt líf og notið ástar fjölskyldu minnar og trúarinnar," sagði Odell í viðtali árið 1994. 

Talið er að um 30 Bandaríkjamenn séu enn í stállungum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert