Umdeildir fulltrúar fá hálft atkvæði hver

Sérstök nefnd, sem sett var á stofn innan bandaríska Demókrataflokksins, samþykkti í kvöld málamiðlun í deilu um fulltrúa frá Flórída og Michigan á þingi flokksins í sumar. Fær hver fulltrúi hálft atkvæði á flokksþinginu. 

Flórída og Michigan fóru ekki eftir vilja flokksstjórnarinnar um dagsetningar forkosninga og því átti að svipta fulltrúa þessara ríkja atkvæðisrétti á flokksþinginu.  Eftir að ljóst var að mjótt yrði á mununum milli Obama og Clinton, ef til kosninga kemur á flokksþinginu um hvort þeirra verður forsetaefni flokksins, hófust mikil átök um málið.

Þessi niðurstaða þýðir, að Clinton fær 69 kjörmenn frá Michican og Obama 59 en hver þeirra fær aðeins hálft atkvæði. Í Flórída fær Clinton 105 kjörmenn en Obama 67. Þessir kjörmenn fá sömuleiðis hálft atkvæði. Því fær Clinton samtals 94,5 atkvæði til viðbótar en Obama 69.

Samkvæmt þessu þarf frambjóðandi 2118 kjörmenn á flokksþinginu til að tryggja sér útnefningu sem forsetaefni. Obama vantar 65 kjörmenn til að ná þeirri tölu. Eftir er að kjósa í þremur ríkjum en einnig eru óbundnir þingfulltrúar, sem eiga eftir að gefa upp afstöðu sína.

Þær fréttir bárust einnig í kvöld, að Obama hefði sagt sig úr kirkjudeild sinni í Chicago en ummæli, sem prestar þar hafa viðhaft, hafa valdið hörðum deilum. Í síðustu viku gerði gestapredikari í kirkjunni gys að Clinton fyrir það hvernig hún reyndi að útskýra afstöðu sína til kynþáttamála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert