Búrmastjórn vísar gagnrýni á bug

Herforingjastjórnin í Búrma hélt því fram í dag að hún hefði brugðist skjótt við náttúruhamförunum í apríl þegar fellibylurinn Nargis fór yfir suðurhluta landsins. Bandarísk stjórnvöld gagnrýndu Búrmastjórn harðlega í gær fyrir aðgerðaleysi og Sameinuðu þjóðirnar sögðu, að enn hefði ekki tekist að koma hjálpargögnum til um 200 þúsund nauðstaddra.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í morgun að bandarísk skip, sem eru í nágrenni Búrma hlaðin hjálpargögnum, muni væntanlega snúa frá á næstu dögum fái þau ekki að leggjast að bryggju svo hægt sé að afferma vistirnar.

Gates hefur sakað stjórnvöld í Búrma um að þverskallast við að heimila erlendum hjálparsamtökum að starfa í landinu. En Aye Myint, aðstoðarvarnarmálaráðherra, sagði á öryggismálaráðstefnu í Singapúr, sem Gates situr einnig, að stjórnvöld hafi brugðist hratt við og muni taka án skilyrða við erlendri aðstoð.

Myint sagði, að reistar hefðu verið búðir fyrir heimilislausa, svæði hefðu verið hreinsuð, rafmagni komið á og vatnsveitur endurbyggðar. Þá sagði hann, að stjórnvöld í Búrma hefðu varað við fellibylnum með nægum fyrirvara. Talið er að 134 þúsund manns hafi látið lífið í hamförunum og 2,4 milljónir manna séu á vergangi.

Búrmastjórn segir að fyrsta stigi björgunaraðgerða sé lokið og nú taki við tímabil endurbyggingar. En SÞ segja, að veita þurfi neyðarhjálp í að minnsta kosti hálft ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert