Bandaríkjaher greindi frá því í dag að 19 bandarískir hermenn hafi fallið í maí. Aldrei hafa færri hermenn fallið í einum mánuði frá því Bandríkin gerðu innrás í Írak árið 2003 til að koma Saddam Hussein frá völdum.
Fram kemur á fréttavef Reuters að 505 saklausir borgarar létust í Írak í síðasta mánuði og er það talsverð fækkun miðað við apríl, þegar 968 óbreyttir borgarar í Írak létu lífið.
Bandaríkjaher segir að mjög hafi dregið úr ofbeldi í Írak, og að það hafi ekki mælst minna í fjögur ár. Vilja þeir þakka því þegar bandarískar og íraskar hersveitir blésu til sóknar gegn uppreisnarhópum sjía-múslíma í Basra og Bagdad og gegn al-Qaeda í Mosul.
Sjálfsvígsprengjuárás, sem var gerð í bænum Hit í Anbar-héraði landsins í gær, er til marks um það hve ástandið í Írak er viðkvæmt. Í árásinni féll lögreglustjóri, níu lögreglumenn og þrír óbreyttir borgarar.