Frönsk stjórnvöld hafa ákveðið að áfrýja úrskurði dómstóls í Lille sem varð við kröfu múslíma um að hjónaband hans yrði ógilt á þeim forsendum að eiginkonan hafi logið því til að hún væri hrein mey. Úrskurðurinn vakti miklar deilur í Frakklandi.
Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneyti Frakklands í dag segir, að Rachida Dati dómsmálaráðherra hafi falið ríkissaksóknara að áfrýja úrskurðinum.
„Ógilding dómstólsins í Lille á hjónabandi hefur vakið miklar deilur í þjóðfélaginu. Þetta mál ... varðar alla franska borgara, einkum konur,“ segir í tilkynningunni.
Eiginkonan er einnig múslími. Manninn fór að gruna að hún væri ekki hrein mey, eins og hann segir hana hafa fullvissað hann um áður en þau giftust, eftir brúðkaupsnóttina vegna þess að ekkert blóð var í rúmfötunum.
UMP flokkurinn, sem fer með völd í Frakklandi, hefur mótmælt úrskurði dómsins og krafist þess að dómsmálaráðherrann hnekki honum. Dómurinn stangist á við veraldleg grundvallarsjónarmið landsins.
Kvenréttindasamtök kváðu dóminn skammarlegan og veita körlum lagaheimild til að hafna konum á þeim forsendum að þær væru ekki óspjallaðar meyjar.