Gaf í skyn að Clinton ætli að hætta

AP

Bill Clinton gaf í skyn í ræðu í dag að kona sín, Hillary, ætli að hætta baráttunni við Barack Obama um útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins. Þá herma fregnir að Hillary sé nú að íhuga kosti sína í stöðunni í ljósi yfirgnæfandi forystu Obamas í forvalinu.

„Ég vil einnig taka það fram, að þetta kann að vera síðasti dagur minn í baráttu sem þessari,“ sagði Bill á fundi með stuðningsmönnum Hillary í Suður-Dakóta, að því er sjónvarpsstöðvarnar ABC og NBC greindu frá.

„Ég hélt að ég væri hættur í pólitík, þangað til Hillary ákvað að bjóða sig fram. En það hefur verið mér mikill heiður að ferðast um og berjast fyrir útnefningu hennar til forsetaframbjóðanda.“

Aðrir fjölmiðlar greindu frá því í dag að í ljósi afgerandi forystu Obamas í forvalinu sé Hillary nú að íhuga hvort hún haldi baráttunni áfram eftir að síðustu forkosningunum er lokið á morgun.

Tilkynnt var að Hillary myndi halda „kosningahátíð“ í New York, en ekki í Montana eða Suður-Dakóta, síðustu ríkjunum sem forkosningar fara fram í. Þá hafi starfsfólki framboðs hennar verið sagt að koma aftur til New York þar sem hlutverki þess í baráttunni væri að ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert