Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, fordæmdi í dag sjálfsmorðsárás, sem gerð var á sendiráð Dana í Islamabad í Pakistan í morgun. Sagði Fogh Rasmussen, að árásin væri óverjandi og lýsti heigulshætti.
Fogh Rasmussen sagðist hins vegar ekki gagnrýna pakistönsk stjórnvöld og sagði að ekki kæmi til greina að láta danska hermenn taka yfir öryggisgæslu við sendiráð. Þá yrði danskri utanríkisstefnu ekki breytt vegna þessarar árásar.
Per Stig Møller, utanríkisráðherra Dana, sagði að markmið árásarinnar hefði augjáanlega verið að skaða samband Danmerkur og Pakistans. Árásinni hefði ekki síður verið beint gegn öryggishagsmunum Pakistana en Dönum en pakistanskir öryggisverðir voru meðal átta manna, sem létu lífið.
Fjórir Danir starfa í sendiráðinu en þá sakaði ekki. Pakistanskur starfsmaður lét hins vegar lífið og þrír særðust.