Forseti Írans, Mahmoud Ahmadinejad, gagnrýndi stefnu Bandaríkjastjórnar í Miðausturlöndum og sagði að Ísraelsríki myndi hverfa, á blaðamannafundi í Róm í dag en forsetinn situr þar matvælaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.
Sagði Ahmadinejad að forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, vildi ráðast inn í Íran en hann veru hans í Hvíta húsinu myndi ljúka í nóvember án þess að honum yrði að ósk sinni. „Bandaríkin hafa ekki komið með neitt annað til Miðausturlanda annað en hótanir, þrýsting og harðstjórn," sagði forseti Írans á blaðamannafundinum.
„Bush hefur haft mikinn áhuga á hernaðarlegri árás gegn Íran. Í nokkur skipti hefur hann reynt að finna afsökun fyrir slíkri árás en í hvert skipti hefur honum mistekist."
Ahmadinejad hélt því fram á blaðamannafundinum að kjarnorkuáætlun Írans bryti ekki gegn alþjóðalögum. „Kjarnaorkuáætlun okkar er lögleg og gegnsæ. Við förum ekki fram á annað en það sem við eigum rétt á."
Forsetinn ítrekaði fyrri orð sín um að Ísraelríki biði ekkert annað en endalok og segir ríkið vera á þeirri leið hvort sem Íranar komi þar nálægt eður ei.