Lík af nýfæddu barni fannst í Horsens

Lík af nýfæddu stúlkubarni fannst í dag í runna í almenningsgarði í Horsens á Jótlandi. Líkið hafði verið vafið í handklæði og síðan sett í plastpoka. Telur lögregla að líkið hafi legið þarna í nokkra daga þegar vegfarandi fann pokann um klukkan 17 að dönskum tíma í dag.

Lögreglan er enn að rannsaka svæðið og hefur upplýst hvort barnið hafi verið látið eða lifandi þegar það var sett í pokann.  Danskir fjölmiðlar hafa eftir Steen Edeling, talsmanni lögreglunnar á suðaustur Jótlandi, að lögð sé áhersla á að finna móðurina, sem án efa sé örvingluð og hafi þörf fyrir aðstoð.  

Geir Ármann Gíslason, sem stundar nám í byggingafræði í Horsens, segir í tölvupósti til mbl.is, að íbúar í Horsens séu afar slegnir yfir þessum fréttum. Hann segir að garðurinn sé ekki mjög stór en þar sé mikill trjágróður.

Fyrir réttu ári fannst barnslík í poka við Óðinsvé á Fjóni. Aldrei tókst að finna foreldra þess.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert