Bandarísk herskip munu brátt sigla frá ströndum Búrma eftir að hafa árangurslaust reynt að fá leyfi yfirvalda landsins til að veita fórnarlömbum fellibylsins Nargis aðstoð. Sjóherinn sagðist mundu senda skipin fjögur annað eftir 15 árangurslausar tilraunir til að fá leyfi til að veita aðstoð.
Samkvæmt fréttavef BBC hafa bresk og frönsk herskip þegar horfið af braut eftir að hafa verið synjað um leyfi til að sigla inn í landhelgi Búrma.
Í kjölfar Nargis létust um 133 þúsund manns eða er enn saknað og Sameinuðu Þjóðirnar áætla að 2,4 milljónir manna þurfi á mat, skjóli og lyfjum að halda og að ríflega milljón manna hafi ekki fengið neina aðstoð í kjölfar náttúruhamfaranna.