Clinton mun lýsa sig sigraða á föstudag

Hillary Clinton mun hætta baráttu sinni fyrir útnefningu sem forsetaefni bandaríska demókrataflokksins á föstudag og lýsa formlega yfir ósigri fyrir Barack Obama. Bandarískir fjölmiðlar fullyrða þetta í kvöld. 

Háttsettur heimildarmaður í herbúðum Clinton staðfesti þessar fréttir við vefinn politico.com og sagði að öldungadeildarþingmaðurinn muni formlega láta af baráttu sinni á föstudag. 

Clinton heimsótti höfuðstöðvar framboðs síns í Arlington í Virginíu í kvöld og sagði starfsfólki, að þess yrði ekki lengur þörf eftir föstudaginn. Að sögn ABC sjónvarpsstöðvarinnar var fundurinn tilfinningaríkur og margir  starfsmenn, sem unnið hafa fyrir Clinton í nærri eitt og hálft ár, brustu í grát.

Dagblaðið  The New York Times hefur eftir háttsettum ráðgjafa Clinton, að hún muni væntanlega lýsa yfir stuðningi við Obama á föstudag enda hafi framámenn í flokknum hvatt hana til þess og sagt að nauðsynlegt væri að snúa sér að baráttunni við John McCain, frambjóðanda repúblikana.

Obama tryggði sér í gær rúmlega helming kjörmanna á flokksþingi demókrata, sem fer fram í ágúst og verður því forsetaefni flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert