Obama lýsir yfir sigri

00:00
00:00

Barack Obama lýsti í nótt yfir sigri í bar­átt­unni um út­nefn­ingu sem for­seta­efni Demó­krata­flokks­ins í Banda­ríkj­un­um en hann hef­ur tryggt sér meiri­hluta kjör­manna á flokksþingi demó­krata í sum­ar. For­kosn­ing­ar fóru fram í Suður-Dakóta og Mont­ana í dag. 

„Í kvöld stend ég frammi fyr­ir ykk­ur og segi, að ég verð for­seta­efni Demó­krata­flokks­ins," seg­ir Obama í ræðu, sem hann mun flytja síðar í nótt í St. Paul í Minnesota, en úr­drætti úr henni var dreift til fjöl­miðla fyr­ir­fram.

„Í kvöld ljúk­um við sögu­legri ferð og hefj­um aðra, ferð  sem mun færa Am­er­íku betri daga," sagði Obama. Hann fyrsti blökkumaðurin, sem trygg­ir sér út­nefn­ingu sem for­seta­efni demó­krata.  

Obama sagði að Hillary Rod­ham Cl­int­on, keppi­naut­ur hans um út­nefn­ingu demó­krata, væri leiðtogi sem veitti millj­ón­um Banda­ríkja­manna inn­blást­ur.  

Sam­kvæmt út­reikn­ing­um CNN sjón­varps­stöðvar­inn­ar vantaði Obama 4 kjör­menn til að tryggja sér út­nefn­ing­una. Þá kjör­menn fékk hann um leið og kjör­stöðum var lokað í Suður-Dakóta því þótt út­lit sé fyr­ir að Hillary Cl­int­on hafi farið þar með sig­ur af hólmi mun Obama fá að minnsta kosti fimm kjör­menn og þar með að minnsta kosti 2119 kjör­menn á flokksþing­inu. 2118 þarf til að hljóta út­nefn­ingu. 

Hillary Cl­int­on hef­ur hins veg­ar tryggt sér 1918 kjör­menn sam­kvæmt út­reikn­ing­um CNN. Fox sjón­varps­stöðin seg­ir hins veg­ar að Obama hafi þegar tryggt sér 2129 kjör­menn og Cl­int­on 1911. Útgöngu­spá Fox ger­ir ráð fyr­ir að Obama sigri í Mont­ana.

Í ræðu sinni gagn­rýndi Obama vænt­an­leg­an keppi­naut sinn, John McCain, og sagði að hann hefði á síðasta ári greitt at­kvæði með Geor­ge W. Bush, for­seta, í 95% at­kvæðagreiðslna á Banda­ríkjaþingi.

„Það er hægt að lýsa með mörg­um orðum til­raun­um Johns McCain til að lýsa faðmlagi sínu við stefnu­mál Geor­ge Bush sem nýj­ung­um og þvert á flokkslín­ur. En breyt­ing er ekki eitt af þeim orðum."

McCain hélt ræðu í nótt í New Or­le­ans þar sem hann lagði hann mikla áherslu á, að ekki væri hægt að líta á fram­boð hans sem fram­hald af for­setatíð Bush. Hann gagn­rýndi harðlega stefnu­mál Obama og sagði að vænt­an­leg­ar kosn­ing­ar snér­ust um breyt­ing­ar sem bæði hann og Obama myndu gera. McCain sagði að mun­ur­inn á þeim væri hins veg­ar sá, að hann myndi leiða þjóðina í rétta átt og í sam­ræmi við tíðarand­ann en þær breyt­ing­ar, sem Obama hef­ur boðað, væru aft­ur­hvarf til fortíðar.

„Rang­ar breyt­ing­ar horfa ekki  til framtíðar held­ur til fortíðar­inn­ar í leit að lausn­um, sem hafa brugðist áður og munu bregðast á ný," sagði McCain.

„Ég er nokkru eldri en fram­bjóðand­inn," sagði McCain, sem er 71 ára en Obama 46 ára. „Þess vegna er ég hissa á hvers vegna ung­ur maður viðrar svona marg­ar hug­mynd­ir, sem áður hafa mis­heppn­ast."

McCain sagðist trúa því að Banda­ríkja­mönn­um væri treyst­andi til að ráða fram úr sín­um mál­um sjálf­ir en Obama teldi að rík­is­stjórn­in ætti að vasast í sem flest­um mál­um.

 Þá hrósaði hann Hillary Cl­int­on og sagði hana hafa opnað marg­ar dyr fyr­ir kon­ur.

Barack Obama og Michelle, kona hans, í Chicago í kvöld.
Barack Obama og Michelle, kona hans, í Chicago í kvöld.
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert