Barack Obama lýsti í nótt yfir sigri í baráttunni um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum en hann hefur tryggt sér meirihluta kjörmanna á flokksþingi demókrata í sumar. Forkosningar fóru fram í Suður-Dakóta og Montana í dag.
„Í kvöld stend ég frammi fyrir ykkur og segi, að ég verð forsetaefni Demókrataflokksins," segir Obama í ræðu, sem hann mun flytja síðar í nótt í St. Paul í Minnesota, en úrdrætti úr henni var dreift til fjölmiðla fyrirfram.
„Í kvöld ljúkum við sögulegri ferð og hefjum aðra, ferð sem mun færa Ameríku betri daga," sagði Obama. Hann fyrsti blökkumaðurin, sem tryggir sér útnefningu sem forsetaefni demókrata.
Obama sagði að Hillary Rodham Clinton, keppinautur hans um útnefningu demókrata, væri leiðtogi sem veitti milljónum Bandaríkjamanna innblástur.
Samkvæmt útreikningum CNN sjónvarpsstöðvarinnar vantaði Obama 4 kjörmenn til að tryggja sér útnefninguna. Þá kjörmenn fékk hann um leið og kjörstöðum var lokað í Suður-Dakóta því þótt útlit sé fyrir að Hillary Clinton hafi farið þar með sigur af hólmi mun Obama fá að minnsta kosti fimm kjörmenn og þar með að minnsta kosti 2119 kjörmenn á flokksþinginu. 2118 þarf til að hljóta útnefningu.
Hillary Clinton hefur hins vegar tryggt sér 1918 kjörmenn samkvæmt útreikningum CNN. Fox sjónvarpsstöðin segir hins vegar að Obama hafi þegar tryggt sér 2129 kjörmenn og Clinton 1911. Útgönguspá Fox gerir ráð fyrir að Obama sigri í Montana.
Í ræðu sinni gagnrýndi Obama væntanlegan keppinaut sinn, John McCain, og sagði að hann hefði á síðasta ári greitt atkvæði með George W. Bush, forseta, í 95% atkvæðagreiðslna á Bandaríkjaþingi.
„Það er hægt að lýsa með mörgum orðum tilraunum Johns McCain til að lýsa faðmlagi sínu við stefnumál George Bush sem nýjungum og þvert á flokkslínur. En breyting er ekki eitt af þeim orðum."
McCain hélt ræðu í nótt í New Orleans þar sem hann lagði hann mikla áherslu á, að ekki væri hægt að líta á framboð hans sem framhald af forsetatíð Bush. Hann gagnrýndi harðlega stefnumál Obama og sagði að væntanlegar kosningar snérust um breytingar sem bæði hann og Obama myndu gera. McCain sagði að munurinn á þeim væri hins vegar sá, að hann myndi leiða þjóðina í rétta átt og í samræmi við tíðarandann en þær breytingar, sem Obama hefur boðað, væru afturhvarf til fortíðar.
„Rangar breytingar horfa ekki til framtíðar heldur til fortíðarinnar í leit að lausnum, sem hafa brugðist áður og munu bregðast á ný," sagði McCain.
„Ég er nokkru eldri en frambjóðandinn," sagði McCain, sem er 71 ára en Obama 46 ára. „Þess vegna er ég hissa á hvers vegna ungur maður viðrar svona margar hugmyndir, sem áður hafa misheppnast."
McCain sagðist trúa því að Bandaríkjamönnum væri treystandi til að ráða fram úr sínum málum sjálfir en Obama teldi að ríkisstjórnin ætti að vasast í sem flestum málum.
Þá hrósaði hann Hillary Clinton og sagði hana hafa opnað margar dyr fyrir konur.