Óskaði Obama til hamingju

Hillary Clinton hélt í nótt ræðu og óskaði Barack Obama til hamingju með frábæra kosningabaráttu í baráttunni um útnefningu sem forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins. Clinton ávarpaði stuðningsmenn sína í New York og sagði að Obama hefði vakið áhuga stórs hóps Bandaríkjamanna á stjórnmálum.

Clinton viðurkenndi hins vegar ekki ósigur og lýsti í ræðunni þeim stefnumiðum, sem hún hefði lagt áherslu á í kosningabaráttunni. Hún sagði að 35 milljónir Bandaríkjanna hefðu greitt atkvæði í forkosningum Demókrataflokksins, sem væri met. Þá hefðu 18 milljónir greitt framboði hennar atkvæði en það væru fleiri atkvæði en nokkur frambjóðandi hefði fengið í slíkum kosningum í sögu Bandaríkjanna. Sagði Clinton, að rödd þessara 18 milljóna manna yrði að fá að heyrast á næsta kjörtímabili.

Þá sagði Clinton, að hún myndi gera það sem í hennar valdi stæði til að sameina Demókrataflokkinn fyrir forsetakosningarnar í nóvember til til að tryggja sigur þar. Hún sagðist hins vegar ekki ætla að taka neina ákvörðun strax um framboð sitt.

Fréttaskýrendur túlkuðu ræðu Clinton þannig, að hún væri að gefa í skyn að hún ætti að vera varaforsetaefni Obamas eða að minnsta kosti að leika stórt hlutverk í ríkisstjórn, sem hann myndar, sigri hann í forsetakosningunum í desember. 

Hillary Clinton heilsar kjósendum.
Hillary Clinton heilsar kjósendum. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert