Talsmaður hryðjuverksamtakanna al-Qaeda í Afganistan segir, að sjálfsmorðsárás sem gerð var á sendiráð Dana í Pakistan fyrr í vikunni hafi verið viðbrögð samtakanna við því að dönsk blöð hafa birt skopmyndir af Múhameð spámanni múslima. Segir talsmaðurinn að gerðar verði fleiri árásir, sem muni beinast gegn þeim löndum þar sem myndirnar voru birtar.
Mustafa Abu al-Yazid, leiðtogi al-Qaeda í Afganistan, birti yfirlýsingu á íslamskri vefsíðu í gærkvöldi þar sem segir, að árásin hafi verið hefnd gegn vantrúarríkinu Danmörku, sem hafi birt móðgandi myndir af boðbera Allah. Árásin sé aðvörun til Dana og annarra sem fylgi þeim eftir svo þeir geti sloppið við að syndga og beðist afsökunar á gerðum sínum.